Um Sitges

Sitges er lítill strandbær um 40 mín akstri frá Barcelona flugvelli á Spáni (35km)

Bærinn liggur meðfram fallegri strandlengju með göngugötu og mörgum mismunandi baðströndum og hverfum.

Í miðborginni er að finna sætar litlar verslanir, veitingastaði, kaffihús og tignarlegar byggingar. Í gamla bænum eru göturnar þröngar og iðandi af lífi og þar leynast falleg torg þar sem hægt er að setjast niður og njóta lífsins. Þar er til dæmis að finna Cap de la Vila sem er söguleg bygging og oft kölluð miðpunktur Sitges. Við Cap de la Vila mætast nokkrar aðalgötur og torgið sjálft er vettvangur viðburða og hátíða.

Í 10 mínútna göngufjarlægð frá miðbænum er hið friðsæla Poble Sec-hverfi sem er rólegur hluti borgarinnar og kjörinn staður til að slaka á og kynnast lífi heimamanna. Garraff-náttúrugarðurinn er þar rétt hjá.


Vinyet og Terramar eru einnig aðlaðandi hverfi með áhugaverðan arkítektúr, skemmtilega leikvelli fyrir börn og 18 holu golfvöll.

Byggingarnar í Sitges endurspegla ríka og fjölbreytta sögu og göngutúr um gamla bæinn gefur innsýn í gotneska stílinn, endurreisnartímabilið og nútíma byggingaraðferðir.

Við aðalhöfnina er dásamlegt útsýni og gaman að fylgjast með skipunum koma í höfn. Þetta er ein stærsta höfnin við Miðjarðarhafið og nokkrir af bestu veitingastöðunum á svæðinu eru þarna í nágrenninu.

Í næsta bæ, Vilanova i la Geltrú er frábær verslunargata sem heitir La Rambla, eftir systurgötunni í Barcelona. Þar er að finna allar helstu verslunarkeðjur svo sem Zara, Zara Home, HM, Benetton, Bershka, Stradivarius, Mango, Oysho og miklu fleiri. Einungis tekur um 5 mín að koma sér til Vilona í lest, þar sem það er næsta stopp við Sitges. Eins er auðvelt að koma sér með lestinni í verslunarmiðstöðina Anec Blau, sem er staðsett í Castelldefels eða inn til Barcelona.

Fjöllin umhverfis bæinn eru þakin vínekrum sem frábært er að heimsækja og fræðast um spænska víngerð. Í fjöllunum leynist einnig Montserrat klaustrið, sem gaman er að upplifa og njóta fjallaútsýnisins.

Veðrið í október er í kringum 17 gráður