Dagsferð á Blönduós 20. Júní 2024

Lagt er af stað frá Digranesvegi 7, fimmtudaginn 20. Júní kl 09:00 að morgni. Ökum sem leið liggur í Borgarnes þar sem við tökum fyrsta stoppið og réttum vel úr okkur. Þaðan er keyrt um fallegan Borgarfjörðinn og yfir Holtavörðuheiði að Brú í Hrútafirði.

Eftir að hafa teygt úr okkur þar er keyrt áfram á Blönduós. Þar höldum við beint í Eyvindarstofu, þar sem
bíður okkar kjötsúpa í anda Fjalla -Eyvindar. Í Eyvindarstofu er útlitið í stíl Eyvindarhellis þar sem gestir upplifa sig í heimkynnum útilegumannsins á Hveravöllum. Veggir, gólf og aðrir innanstokksmunir eru færðir í stílinn og stemmingunni miðlað með hljóði sem minnir á hálendið, hverina og snarkið í eldinum.

Sögunum af Fjalla-Eyvindi er miðlað með myndefni og textum og upplifunin síðan fullkomnuð með sérstökum útilegumannamat, í þetta sinn Kjötsúpu sem borin er fram á skálum í stíl við handverk Fjalla-Eyvindar, sem rómaður var fyrir hagleik sinn.

Eftir að hafa notið matar, kaffis og sögu Fjalla-Eyvindar er haldið af stað aftur og keyrt að sveitabænum Hólabaki í Húnavatnshreppi. Þar tekur á móti okkur listakonan Elín Aradóttir. Með fram búskapnum hafa hjónin á Hólabaki opnað Sveitaverslun með vörur fyrirtækis síns sem hefur framleitt hágæða vefnaðarvöru undanfarin ár. Hafa hjónin kappkostað að nýta þjónustu innlendra aðila hvað varðar aðföng og útfærslu eins og kostur er. Allur saumaskapur er á höndum starfsfólks íslenskra saumastofa. Allar umbúðir eru jafnframt íslensk framleiðsla. Pökkun, lagerhald og dreifing fer líka fram á Hólabaki. Hönnun Elínar byggir á beinni skírskotun til náttúru norðurslóða sem gaman er að skoða og fræðast um.

Eftir heimsókn okkar að Hólabaki er haldið heim á leið og tekin góð stopp á leiðinni til að teygja úr sér og fá sér hressingu. Áætluð heimkoma í Kópavog um kl 20:00. Verð 10.000.-kr