Takk, takk, kæru konur fyrir frábært ferðaár sem var að enda en síðustu ferð ársins 2024 lauk nú í vikunni. Það var jólamarkaðsferð til Edinborgar þar sem 38 konur ásamt fararstjóra skemmtu sér vel þó veðrið hefði mátt vera betra.
Rúmlega 200 konur hafa þetta árið notið ferðalaga orlofsnefndar í fjölbreyttum ferðum innanlands og utan og skapað minningar í minningarbankann. Þökkum við þeim öllum ánægjuleg samskipti, fyrir þau erum við nefndarkonur afar þakklátar.
Við vitum að margar þessara kvenna hefðu ekki fengið tækifæri til að njóta svona ferðalaga ef ekki væru lögbundnar orlofsnefndir húsmæðra í landinu. Ýmsar ástæður gætu legið að baki s.s. félagslegar ástæður, margar konur orðnar ekkjur eða hafa ekki ferðafélaga og ekki síst fjárhagslegar ástæður. Flestir vita eða ættu að vita að margar eldri konur fengu á sínum tíma ekki barnaheimilispláss fyrir börnin sín, samfélagið bauð þeim ekki upp á annað en að vera heimavinnandi. Þessar konur uppskera því svívirðilega lítið úr lífeyrissjóðum í dag og miklu minna en karlar. Meðan ástandið er enn svona á Orlof húsmæðra svo sannarlega rétt á sér.
Orlofsnefndin